Lífið

Stíll Silvíu þriðji neðsti

Silvía Nótt
Silvía Nótt fréttablaðið/valli
Búningur Silvíu Nætur í Eurovision lenti í þriðja sæti yfir þá verstu.

Portúgölsku stúlkurnar í Nonstop sigruðu Barbara Dex verðlaunin, sem eru verðlaun aðdáenda keppninnar yfir versta klæðnaðinn á sviði keppninnar. Verðlaunin kallast Barbara Dex eftir belgíska kynnirnum árið 1993, en hún Barbara saumaði kjólinn sinn sjálf og þótti hann ekki til fyrirmyndar.

Búningur Silvíu hlaut 75 stig en þær portúgöslsku hlutu 196. Finnar voru í öðru sæti með 89 stig, en söngvarinn Herra Lordi, saumar alla búningana á hljómsveitina.

Öskubuskan Jenny frá Andorra lenti í fjórða sæti með 72 stig. Hún átti í miklum erfiðleikum með að ákveða sig og skipti um kjól fyrir hverja æfingu. Dansararnir hennar voru þó á hvítum korsilettum. Ich Troje frá Póllandi lenti í fimmta sæti með 62 stig og Hvítrússar deildu sjötta sætinu með Önnu Vissi frá Grikklandi, en kynnir Sjónvarpsins, Sigmar Guðmundsson, sagði Önnu eins og eina af skyttunum þremur í sjónvarpsútsendingunni. Þau fengu 57 stig.

Portúgölsku stúlkurnar í Nonstop sigruðu Barbara Dex verðlaunin.
Hin tyrkneska Sibel Tuzun var í áttunda sæti með 40 stig en botnvermirinn í aðalkeppninni, Fabrizio Faniello frá Möltu, lenti í níunda sæti með 35 stig. Hann var í kjólfötum en jakkann vantaði.

Silfurverðlaunahafinn Dima Bilan frá Rússlandi lenti í tíunda sæti yfir versta búningum. Hann var í hvítum hlírabol og gallabuxum. Hárgreiðslan hefur væntanlega fleytt honum í sætið en hann var með sítt að aftan.

Alls greiddu 906 atkvæði á vefnum www.eurovisionhouse.nl. Aðeins þrjú lönd fengu engin stig í keppninni; Ísrael, Sviss og Norðmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×