Innlent

Verið að efnagreina sprengiefnið

Frá vettvangi sprengingarinnar í morgun.
Frá vettvangi sprengingarinnar í morgun.

Verið er að efnagreina leifar af sprengiefni úr sprengju sem sprakk undir mannlausum bíl fyrir utan hús í Skeifunni í Reykjavík á þriðja tímanum í nótt með þeim afleiðingum að nærstödd kona meiddist og bíllinn stórskemmdist. Konan, sem varð fyrir sprengjubroti og þurfti að fara á slysadeild til að láta gera að sári á fæti, var að vinna í húsinu og brá sér út á gangstétt til að fá sér frískt loft. Í sama mund sprakk srengjan undir bílnum sem er í eigu samstarfsmanns hennar en hann var við störf í húsinu.

Sprengjusérfræðingar Ríkislögreglustjóra og starfsmenn tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík voru þegar kvaddir á vettvang en ekki fundust fleiri sprengjur. Ekki sást til neins á vettvangi, engar hótanir bárust og enginn sérstakur liggur undir grun, eftir því sem fréttastofan kemst næst.

Bíllinn, sem er fólksbíll, skemmdist talsvert og næsti bíll við hann skrámaðist. Sérfræðingar eru nú að greina leifar af sprengiefninu og virðist í fljótu bragði að það sé ekki venjulegt dínamítpúður, og sprengjan sjálf var heldur ekki dæmigerð heimatilbúin rörasprengja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×