Innlent

Grímur tekur ekki sætið

Grímur Atlason, sem lenti í fimmta sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík um helgina, ætlar ekki að taka sætið. Grímur sóttist eftir fyrsta til þriðja sæti en lenti í því fjórða. Vegna hins svokallaða fléttufyrirkomulags, sem miðar að því að gera kynjunum jafn hátt undir höfði í uppröðun á listann, endaði Grímur aftur á móti í fimmta sæti. Í samtali við fréttastofuna í morgun sagði Grímur að hann ætlaði sér ekki að taka sætið, og hefði raunar heldur ekki tekið það fjórða. Aðspurður um fléttafyrirkomulagið kvaðst hann sáttur við það, enda sé það jákvætt og ekki vanþörf á að konum sé hampað í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir að taka ekki sætið á listanum hyggst Grímur starfa áfram fyrir Vinstri græna. Rúmlega 400 manns greiddu atkvæði í forvalinu. Grímur hlaut 177 atkvæði en Svandís Svavarsdóttir lenti í fyrsta sæti með 277 atkvæði. Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi varð í öðru sæti, eins og hann sóttist eftir, með 167 atkvæði, Þorleifur Gunnlaugsson lenti í þriðja sæti með 160 atkvæði og Sóley Tómasdóttir, sem fékk 175 atkvæði, verður í fjórða sæti á lista Vinstri grænna í borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Kjörsókn í forvalinu var um 60%.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×