Innlent

Stjórnvöld samþykki dagskrárstefnu

Fjölmiðlanefnd leggur til að ljósvakamiðlum verði gert að fá samþykki opinbers stjórnvalds fyrir dagskrárstefnu sinni og að slíkt samþykki verði skilyrði leyfisveitingar. Stjórnarformaður Og Vodafone kallar þetta „yfir-ritstjórn“ ríkisins og efast um að það standist prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Niðurstöðu fjölmiðlanefndarinnar var lýst sem sögulegri sáttagjörð í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Fulltrúar allrar flokka á Alþingi sameinuðust þar um tillögur sem þeir vilja setja í lög á næsta þingi, meðal annars tillögu sem Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Og Vodafone, sem á meðal annars Stöð 2 og Bylgjuna, segir fela í sér „yfir-ritstjórn“ ríkisins á dagskrárefni ljósvakamiðla. Hann vísar þess að fjölmiðlanefndin gerir það að tillögu sinni að það verði skilyrði leyfisveitingar til útvarpsrekstrar að dagskrárstefna liggi fyrir og samþykkja þurfi meiriháttar breytingar á henni. Hann segir enga þörf á því og hugsanlega sé verið að ganga gegn prentfrelsisákvæðum. „Þetta hljóta að vera einhver mistök hjá nefndinni að hafa sett þetta inn,“ segir Skarphéðinn. Fjölmiðlanefndin leggur einnig til að eignarhald verði takmarkað þannig að enginn megi eiga meira en 25 prósent í fjölmiðli sem náð hefur ákveðinni útbreiðslu. Skarphéðinn segist geta lifað við það, enda hafi stærsti hluthafi Og Vodafone gert þetta að tillögu sinni til sáttaráttar fyrir tæpu ári og ekkert hafi breyst í því. Það sé hins vegar spurning hvort í skrá almenningshlutafélaga ætti þetta ekki að fara með hámarkseign þar, sem sé verið að færa niður í 30%. „Okkar félag er skráð almenningshlutafélag og verður það áfram. Það væri ágætt að það væru þá hinar almennu reglur Kauphallarinnar sem giltu,“ segir Skarphéðinn. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.