Menning

Segja Bónus hafa bætt kjörin

Hólmarar segja lífskjör í Stykkishólmi hafa batnað verulega með opnun Bónusverslunar í haust. Viðskiptavinir koma af öllu Snæfellsnesi og einnig frá Vestfjörðum og segir bæjarstjórinn það styrkja um leið aðra starfsemi í bænum. Bónus opnaði verslun í Stykkishólmi í október og kom hún í staðinn fyrir verslun 10-11 sem var áður í sama húsi. Kannanir hafa sýnt nærri 40 prósenta mun á verði matvöru milli þessara verslana og er því skiljanlegt að heimamenn fagni breytingunni. Sigurður Kristjánsson, sem var að versla í Bónus þegar fréttastofa var á svæðinu um daginn, segir að tilkoma verslunarinnar hafi gífurleg áhrif og Jóhannes í Bónusi eigi hrós skilið fyrir að hafa opnað búðina. Gerður Sigurðardóttir, sem einnig er viðskiptavinur, segist aðspurð finna mikinn mun á heimilisútgjöldum. Fólk kemur langt að úr öðrum byggðarlögum til að versla. Egill Egilsson verslunarstjóri segir að fólk komi af öllu Snæfellsnesinu og sömuleiðis frá Vestfjörðum með ferjunni Baldri. Stykkishólmur er rótgróinn verslunarstaður. Þar versluðu útlendir kaupmenn fyrr á öldum enda var þarna miðstöð verslunar við Breiðafjörð. Ljóst er að þessi nýja búð styrkir byggðarlagið verulega. Óli Jón Gunnarsson bæjarstjóri segir að það sé alveg ljóst að það hafi verið umtalsverð kjarabót fyrir íbúana að fá Bónus í bæinn og það hafi styrkt aðra starfsemi í leiðinni. Hann finni fyrir því hversu mikilvægt það sé að verslunin sé svo öflug sem raun ber vitni og kjörin góð. Bæjarstjórinn fagnar því að Hólmurinn skuli eflast um leið sem verslunarbær. Fólk komi annars staðar frá og nýti sér það sem í boði sé og það hafi allt sín keðjuverkandi áhrif.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×