Innlent

Óviðkomandi með öryggiskóða

Sumir fyrrverandi öryggisverðir Securitas hafa gilda öryggiskóða að fyrirtækjum og heimilum sem keypt hafa þjónustu af fyrirtækinu. Fyrrverandi öryggisvörður afhenti blaðamanni Fréttablaðsins miða með númeri sem veitti fullan aðgang að því húsi sem blaðið hefur aðsetur í. Kóðanum var hins vegar breytt eftir samtal blaðamanns við forstjóra Securitas í gær. Fréttablaðið hafði samband við nokkra fyrrverandi og núverandi starfsmenn Securitas sem segja of sjaldan skipt um öryggiskóða hjá fyrirtækjum miðað við hversu hröð starfsmannaveltan sé. Einn lýsti tíðum starfsmannaskiptum þannig að hann hefði aðeins þekkt lítinn hluta starfsfólksins þegar hann kom úr sumarfríi. Guðmundur Arason, forstjóri Securitas, segir starfsmannaveltu fyrirtækisins vera minni en í mörgum samsvarandi fyrirtækjum í Evrópu og Ameríku. Þrátt fyrir það séu viðhafðar sömu reglur til að lágmarka áhættu sem felist í því að starfsmenn misnoti aðstöðu sína. Hann segir ekki hægt að upplýsa um allar fyrirbyggjandi aðferðir sem notaðar séu þar sem þær snerti öryggismál viðskiptavina fyrirtækisins. "Með vel skilgreindum vinnuaðferðum okkar og reynslu ábyrgjumst við eitt hundrað prósent þá þjónustu sem við veitum," segir Guðmundur. Viðmælendur blaðsins sögðu suma fyrrum öryggisvarðanna enn eiga einkennisklæðnað sinn. Til að mynda hafi maður sem áður hafði starfað sem öryggisvörður verið fenginn til að hlaupa í skarðið vegna forfalla og hafi hann getað mætt í fullum skrúða til vinnu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×