Innlent

Sekur kynferðisbrotamaður sýknaður

Hæstiréttur klofnaði í gær í afstöðu sinni til þess hvort dómurinn geti endurmetið sönnunargildi munnlegs framburðar í héraðsdómi. Niðurstaðan er sú að karlmaður, sem þó er talinn sekur um kynferðisbrot gegn ungri stúlku, er sýknaður. Dómur sem féll í Hæstarétti í gær virðist marka tímamót að því leyti að þar klofnar dómurinn í afstöðu sinni til þess hvort hann getur endurmetið munnlegan framburð vitna sem kallaðir eru fyrir héraðsdóm. Málið snýst um kynferðisbrot karlmanns gegn ungri stúlku sem í héraðsdómi var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brot sín. Maðurinn var annars vegar ákærður fyrir að áreita stúlkuna kynferðislega. Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms hvað varðar þennan ákærulið með vísan til þess að hann geti ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um munnlegan framburð og í málinu njóti ekki annarra sönnunargagna. Maðurinn er hins vegar ákærður fyrir að hafa haft við stúlkuna samfarir og þarna verður ekki betur séð en Hæstiréttur komist að þveröfugri niðurstöðu. Nú bregður nefnilega svo við að Hæstiréttur endurmetur niðurstöðu héraðsdóms hvað varðar munnlegan framburð og kemst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi ekki verið eins alvarlegt og fullyrt var, þ.e. að hann hafi ekki haft við hana samfarir heldur áreitt hana kynferðislega. Þar sem kynferðislegt áreiti er vægara en samfarir er brotið fyrnt og maðurinn því sýknaður en engu að síður dæmdur til að greiða henni skaðabætur. Minnihluti Hæstaréttar kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að rétturinn geti ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar hvað varðar báða ákæruliði. Sif Konráðsdóttir, lögmaður stúlkunnar, segir atriðið sem Hæstiréttur klofnar um, og var getið um hér að framan, „prinsippatriði“. „Þarna er um að ræða mismunandi túlkun á þessum lagaákvæðum sem takmarka rétt Hæstaréttar til að endurskoða niðurstöðu héraðsdóms,“ segir Sif. Niðurstaðan er því sú að maðurinn, sem áður var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar, er sýknaður en er engu að síður dæmdur til að greiða stúlkunni skaðabætur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×