Innlent

Lítið forrit lækkar símreikninginn

Eitt lítið tölvuforrit getur lækkað símreikning fólks um þúsundir króna á mánuði. Tugir milljóna manna nota þetta forrit nú þegar og þeim fer fjölgandi með degi hverjum. Tölvusérfræðingur segir að þetta kollvarpi símamarkaðnum. Hvaða tölvunotandi sem er getur hlaðið tölvuforritinu Skype inn á tölvuna sína á örfáum mínútum. Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri spurl.net, segir að forritið geri fólk kleift að hringja úr tölvu í annað fólk sem einnig sé með Skype eða jafnvel í síma í hinu almenna símkerfi, hvort sem er farsíma eða heimilissíma. Það eina sem viðkomandi þarf að eiga er tölva og heyrnartól með hljóðnema og þá er hægt að spara stórfé. Hjálmar segir að þetta hafi það í för með sér að fólk geti fengið mjög ódýr eða jafnvel ókeypis símtöl. Ef það hringi í notanda sem sé með Skype-forritið í tölvunni hjá sér sé símtalið ókeypis, óháð því hvar það sé statt í heiminum. Ef hringt sé í einhvern í hinu almenna símkerfi, sérstaklega í landlínusíma, sé verðið fyrir símtal miklu lægra en í hinu almenna kerfi. Sparnaðurinn getur hlaupið á þúsundum króna, sérstaklega ef fólk tali mikið við vini og vandamenn í útlöndum. Hjálmar segir að símtöl til flestra landa Evrópu, Bandaríkjanna og Ástralíu, þeirra landa sem Íslendingar eigi mest samskipti við, kosti um eina og hálfa til tvær krónur mínútan en í almenna símkerfinu kosti mínútan á milli 10 og 15 krónur. Nú þegar nota nálægt 40 milljónir manna þetta kerfi og þeim fjölgar hratt með degi hverjum. Hjálmar spáir því að þetta muni kollvarpa símamarkaðnum því það séu ekki bara tölvunördar sem noti þetta heldur geti og muni almenningur notað þetta í auknum mæli í náinni framtíð. Hér á landi sé fólk sem eigi ættingja erlendis, til dæmis foreldrar sem eigi börn í erlendum skólum, farið að nota Skype. Og þegar þetta sé komið út fyrir þann nördahóp sem tileinki sér allt um leið sé hægt að segja að mikil breyting sé í vændum á símamarkaði.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×