Innlent

Öryggi barna á Netinu

Heimili og skóli, landssamtök foreldra, hafa fengið 25 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til að stuðla að öruggri notkun barna og unglinga á Netinu. Verkefnið nær einnig til foreldra því meirihluti þeirra virðist ekki hafa hugmynd um netnotkun barna sinna. Í verkefninu verður lögð áhersla á jákvæða notkun Netsins og nýrra miðla og beinist það fyrst og fremst að börnum, foreldrum, skólakerfinu og ýmsum þeim sem þjónusta Netið. Meðal þess sem tekið verður fyrir eru siðferði og samskiptahættir á Netinu, notkun og merking tölvuleikja, persónuöryggi og notkun farsíma meðal barna og unglinga í tengslum við síaukna samvirkni þeirra við Netið. Verkefnið byggist að nokkru leyti á svokölluðu SAFT-verkefni nokkurra landa um öryggi barna á Netinu sem landssamtökin unnu fyrir Íslands hönd árin 2002 til 2004. Anna Margrét Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla, segir að lögð verði áhersla á að kenna börnum og koma á fræðslu inn í skólakerfið um að það sé ekki alveg sama hvernig maður hegði sér á Netinu þar sem hættur leynist þar eins og annars staðar. Markhópurinn sé þó ekki síst foreldrarnir þar sem kannanir sýni að þeir viti mun minna um netnotkun barna sinna en þeir halda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×