Innlent

Laugavegur blóði drifinn

Gistihúsaeigandi segir Laugaveginn verða að frumskógi um helgar þar sem menn eru barðir til óbóta.
Gistihúsaeigandi segir Laugaveginn verða að frumskógi um helgar þar sem menn eru barðir til óbóta.

"Ég var að loka hjá mér þegar ég sá sjúkraflutningamenn taka manninn upp úr götunni á laugardagsmorgun. Svo þegar ég var á leiðinni heim á sunnudagsmorgun fór ég fram hjá þvílíkum blóðpollum skáhallt á móti veitingastaðnum Asíu að það var líkt og einhverjum hefði verið slátrað þarna," segir Gunnar Már Þráinsson, einn af eigendum Kaffi Oliver.

Þessi rúmlega þrítugi maður, sem Gunnar Már sá, slasaðist alvarlega um klukkan sjö á laugardagsmorgun eftir að á hann var ráðist rétt fyrir utan gistiíbúðir á Laugavegi 18. Var hann fluttur þaðan á Landspítalann þar sem liggur á gjörgæslu. Manninum var enn haldið sofandi í öndunarvél þegar Fréttablaðið fór í prentun.

Talið er að hann hafi slasast þegar hann skall með höfuðið í jörðina eftir árás. Maður um þrítugt hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á miðvikudag.

Að sögn lögreglunnar hefur árásar­maður­inn ekki áður komið við sögu vegna ofbeldismála. Nú er verið að rannsaka tildrög deilnanna og hafa þegar allnokkur vitni verið yfirheyrð.

Lögregla og sjúkraliðsmenn voru komnir á vettvang skömmu eftir að maðurinn slasaðist en að sögn lögreglu virtust menn ekki átta sig á því í fyrstu hve illa maðurinn var slasaður. Hér eru allar gangstéttir út­ataðar í blóði á morgnana þannig að maður veit að einhvern tímann hlýtur einhver að slasast illa í þessum djöfulgangi, segir Árni Einarsson, eigandi gistiíbúðanna.

Eftir að myndavélarnar voru settar upp í miðbænum færast þessi ólæti bara upp Laugaveginn og nú er þetta orðið að frumskógi þar sem menn eru barðir til óbóta um hverja helgi og öskrin og lætin eru eftir því.

Auk þess er tjón af þessu látum hreint skelfilegt. Bara um þessa helgi voru brotnar hér rúður fyrir 600 þúsund krónur, segir hann. Árni segir dugleysi yfirvalda um að kenna að íbúar og fyrirtæki þurfi að búa við slíkt ástand og vill að veitingastaðir sem laða að sér svona ástand verði sviptir starfsleyfi: Ef einhver kvartar yfir lýsislykt eða tillitslausum nágranna þá er strax brugðist við en ef um er að ræða veitingastaði þar sem borgarstjórarnir drekka kaffið sitt þá fæst ekki rönd við reist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×