Innlent

Niðurskurður fjár kannski óþarfur

Riða kom upp á bænum Árgerði í Skagafirði um mitt sumar. Á bænum er um 500 fjár sem fargað verður á næstu dögum og urðað á Sauðárkróki, að sögn Margrétar Kristjánsdóttur, húsfreyju og skógarbónda í Árgerði. Riða kom áður upp á bænum árið 1985, en það ár og næstu þar á eftir, stakk hún sér líka niður í sumum nærliggjandi bæja. Margrét segir tilgátu Guðbrandar Jónssonar um að riða orsakist af gaseitrun allrar athygli verðar og vonast til að hún verði skoðuð með opnum huga og rannsökuð nánar. Eigi tilgátan við rök að styðjast er í raun óþarfi að farga búfénaði þar sem riða kemur upp, enda orsakast veikin þá af aðbúnaði dýranna en ekki smiti. Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir segir hins vegar embættið ekki telja vangaveltur Guðbrandar skoðunar verðar. "Vitað mál er að riða berst með ákveðnu smitefni sem kallað er príon og þannig að þetta á ekki við nein rök að styðjast," segir hann og telur varla að tilvist gastegunda í gripahúsum kalli á frekari rannsókn embættisins. "Mengun ætti þá að koma fram bæði í almennri líðan bæði kinda og svo manna sem gegna fénu." Guðbrandur átelur hins vegar að yfirdýralæknisembættið rannsaki bara skepnurnar sem veikjast en skoði ekki sjálf gripahúsin. "Þeir mæla hvorki gerla, gas, hita, raka eða eitt eða neitt. Það fer enginn inn í húsin þar sem riðuveikin kemur upp," segir hann. Margét Kristjánsdóttir er óánægð með viðbrögð yfirdýralæknisembættisins við tilgátunum um möguleg áhrif gaseitrunar í gripahúsunum á bænum. Hún segir ólíklegt að á bænum verið aftur reynt við sauðfjárrækt eftir að skorið verður niður í kjölfar riðusmitsins. "Það væri þá ekki nema til heimilisnota," sagði hún og er greinilega slegin yfir því að þessi ógæfa ríði nú yfir aftur. "Þetta er náttúrlega hundleiðinlegt og maður hefur hálfpartinn á tilfinningunni að allir séu hræddir við mann." Stutt er á milli bæja í sveitinni og telur hún að einhverjir kunni að óttast að aka yfir kindaskít á veginum og bera þannig smit á aðra bæi. "En ég er eiginlega alveg steinhætt að vera hrædd við skítinn. Allt gengur féð saman í fjöllunum þannig að ef smitið væri í skítnum þá værir riða löngu komin út um allt," segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×