Innlent

Fjölgun í samfélagsþjónustu

Þeim hefur fjölgað mjög sem vilja inna af hendi samfélagsþjónustu í stað þess að greiða sektir. Fjöldinn er orðinn slíkur að Fangelsismálastofnun getur ekki sinnt umsóknunum á skilvirkan hátt. Árið 2000 var heimilað að hægt væri að afplána vararefsingu fyrir afbrot með samfélagsþjónustu. Fyrsta árið sóttu 99 manns um slíkt, 163 árið eftir, árið 2002 voru þeir 213 og á síðasta ári fjölgaði þessum umsóknum til muna þegar 374 sóttu um að inna af hendi samfélagsþjónustu í stað þess að greiða sekt. Af þeim hópi var 195 heimilað að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu. Af þessu má ráða að fjöldi þeirra sem komast í kast við lögin finnst erfiðara að sjá á eftir peningum sínum, fremur en að þurfa að mæta í vinnu fyrir ýmis félög og stofnanir. Þessa mikla fjölgun þýðir það að ekki hefur tekist að afgreiða allar umsóknir frá síðasta ári um að sinna samfélagsþjónustu í stað þess að greiða sekt. Um síðustu áramót voru 100 umsóknir óafgreiddar. Í ársskýrslu Fangelsismálastofnunar segir að nú sé svo komið að stofnunin geti ekki með neinu móti sinnt afgreiðslu umsókna á skilvirkan hátt eins og æskilegt væri. Samkvæmt samantekt Margrétar Sæmundsdóttur sérfræðings hjá stofnuninni hefur samfélagsþjónustan gengið vel hér á landi og flestir þeirra sem hana inna af hendi eru ánægðir með fyrirkomulagið. Reyndar svo ánægðir að sumir þeirra hafa haldið áfram að starfa í sjálfboðavinnu fyrir þann vinnustað sem það veitti samfélagsþjónustu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×