Innlent

Austfirðingum fækkar

Fyrstu átta mánuði ársins fengu ríflega 400 útlendingar atvinnuleyfi hér á landi í tengslum við virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka. Athygli vekur að á sama tíma sýna tölur á vef Hagstofu Íslands að brottfluttir Austfirðingar voru 62 fleiri en aðfluttir frá janúar til júní 2004. Alls voru gefin út 733 ný atvinnuleyfi til útlendinga á umræddu tímabili, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Þetta er met miðað við sambærileg tímabil undanfarin ár. Þó er talið ólíklegt að árið í ár verði metár þegar upp er staðið. Mikið af atvinnuleyfum voru veitt árið 2001 og 2002, þegar virkjanaframkvæmdir hófust. Einnig eru horfur á að ný atvinnuleyfi verði mjög mörg á næsta ári, þegar bygging álvers fyrir austan hefst fyrir alvöru. Af þeim 733 útlendingum sem hingað hafa komið til lands á árinu, frá 55 þjóðlöndum til að vinna, eru 205 Pólverjar, 96 Kínverjar, 54 Júgóslavar, 42 Slóvakar, 29 Ameríkanar og 19 frá Pakistan. Pólverjarnir, Kínverjarnir og Slóvakarnir eru nær allir á leið austur til að vinna að Kárahnjúkavirkjun, og verulegur hluti annarra útlendinga líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×