Innlent

Orkuhjón varasöm

Tómatar, farsímar og jafnvel burðarbitar í loftum geta ógnað heilsu fólks, að sögn bandarískra hjóna sem segjast lækna sjúkdóma og kenna Íslendingum að koma í veg fyrir orkuleka í sjálfum sér með því að bera á sér steina. Ættingjar nemendanna hafa áhyggjur af ástvinum sínum og landlæknir segir þetta hættulega fjárplógsstarfsemi. Landlæknir hefur varað við námskeiðum Kane-hjónanna sem snúast um að kenna fólki að byggja upp orku í sjálfu sér. Hann segir þetta gagnslausa en hættulega fjárplógsstarfsemi af verstu tegund. Námskeiðið kostar tuttugu þúsund krónur fyrir manninn, og hafa hjónin haldið tvö slík hér á landi. Þau selja einnig einkatíma á sex þúsund krónur.Fréttastofa hefur rætt við áhyggjufulla vini og ættingja nemenda hjónanna, sem telja ástvini sína komna á hála braut. Enginn nemandi vildi koma í viðtal, en hjónin segja orkutap fólks stafa af til dæmis tölvum, símum, mataræði, lyfjum og jafnvel burðarbitum í loftum. Til að koma í veg fyrir orkutap er fólki ráðlagt að bera svokölluð orkuegg í vasanum, sem að sögn Lyndu ber í sér flókinn útbúnað sem hefur tekið áratugi að þróa. Hún segir flókið orkuforrit inni í egginu, sem geti verndað fólk hvar sem það er, hægt sé að ganga með það í vasanum og það tengist orkusviði hvers og eins og verji fólk hvar sem er. Eftir námskeið á fólk að geta ráðlagt öðrum hvað varðar lyf, mataræði og annað, og segja hjónin þannig hægt að lækna sjúkdóma sem læknavísindin ráða ekki við. Ef fólk á erfitt með að taka ákvarðanir í lífinu getur það hringt í hjónin og borið fram spurningu gegn tvö þúsund króna gjaldi, en tvær spurningar fást fyrir þrjú þúsund krónur. Lynda segir að sé fólk til að mynda að flytja úr landi geti það ráðfært sig við þau hjónin, sem geti svarað því hvort ákvörðunin sé rétt með tilliti til orkusviðs viðkomandi. Gagnrýni landlæknis og áhyggjufullum ættingjum nemenda sinna svara hjónin því til að þetta sé ekki eitthvað sem hægt er að skilja, heldur verði maður bara að upplyfa þetta. Þau hjálpi fólki að skilja orkuna í kringum sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×