Innlent

Tilkynningum um barnaklám fjölgar

Verkefnisstjóri Barnaheilla segir skorta á samstarf lögreglu við samtökin í málefnum barna. Tilkynningum til ábendingarlínu samtakanna fer fjölgandi og tengist þriðjungur þeirra barnaklámi. Fyrir helgi var fulltrúi belgísku samtakanna Child Focus hér á landi á vegum Barnaheilla en samtökin voru stofnuð af föður eins fórnarlamba barnaníðingsins Marc Dutroux. Barnaheill, Stígamót og Kvennaathvarfið eru að fara inn í fjölþjóðlegan gagnabanka um samtök sem bera hag barna fyrir brjósti til að auðvelda starf í þeirra þágu á milli landa. Child Focus samtökin hafa gert samkomulag við belgísk lögreglu- og dómsmálayfirvöld og vinna náið með þeim í málefnum barna sem eru týnd, hafa strokið eða orðið fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis. Það leiðir hugann að því hvernig samstarfið við lögreglu er hér á landi. Hrönn Þormóðsdóttir, verkefnisstjóri Barnaheilla, segir samstarfið meira á annan veginn, þ.e. að samtökin hafi samband við lögreglu en ekki öfugt, a.m.k. enn sem komið er. Hún vill að samstarfið verði skilvirkara og tekur fram að samstarfið sé nauðsynlegt þar sem Barnaheill hafi ekki leyfi til að gera rannsóknir eða nokkuð því um líkt. Ábendingarlína samtakanna er rekin á heimasíðu þeirra, barnaheill.is, en þar getur fólk komið með ábendingar í tengslum við málefni barna. Hrönn segir að á síðasta ári hafi borist 60 ábendingar að meðaltali á mánuði og hafi tuttugu þeirra reynst vera raunverulegt barnaklám. Hún segir aukningu hafa átt sér stað bæði hér á landi og erlendis.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×