Innlent

Frelsun Fischers á næsta leiti

Frelsun Bobbys Fischers úr japönsku fangelsi er sóknarskák sem lýkur innan tíðar með fullnaðarsigri, segja stuðningsmenn hans hér á landi. Japanska dómsmálaráðuneytið hefur fengið málið til meðferðar en þar gæti það legið í langan tíma.  Skákfélagið Hrókurinn boðaði til hádegisverðarfundar um Bobby Fischer í Iðnó í dag þar sem fjallað var um ævi þessa bandaríska skáksnillings sem verið hefur í haldi Japana síðastliðna fimm mánuði. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, færði fundargestum kveðjur frá honum en hann sagði að Fischer væri bjartsýnn þrátt fyrir raunir sínar ytra. Sæmundur sagði hann sérstaklega hlakka til að koma til landsins og borða skyr. Fátt bendir þó til þess að hann get gætt sér á því góðgæti á næstunni því japönsk stjórnvöld virðast ekki ætla að sleppa honum í bráð. Mál hans er nú komið á borð embættismanna í japanska dómsmálaráðuneytinu og er það túlkað sem leið til þess að kaupa meiri tíma til að vinna í málinu. Hrafn Jökulsson, formaður Hróksins, segir tíðindin frá Japan ekki koma sérstaklega á óvart. Þarna sé fyrst og fremst um „skrifræðisviðbrögð“ að ræða en niðurstaðan verði alltaf sú sama: Japanar verði að gefa Fischer frelsi. Hann hafi nefnilega ekki framið neinnn glæp í Japan - frekar en annars staðar. Hrafn, sem segir íslenska utanríkisráðuneytið hafa haldið vel á málinu, segir frelsun Fischers úr japönsku fangelsi sóknarskák sem ljúki innan tíðar með fullnaðarsigri.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×