Innlent

Ákærunni haldið til streitu?

Bandaríkjamenn virðast ætla að halda ákæru á hendur Bobby Fischer til streitu miðað við orð talsmanns utanríkisráðuneytisins í Washington í gær. Davíð Oddsson utanríkisráðherra sagðist í viðtali við Stöð 2 í gærkvöldi ekki telja að Bandaríkjamenn myndu krefjast framsals yfir Bobby Fischer, og einnig, að Íslendingum væri ekki sjálfkrafa skylt að verða við slíkri framsalsbeiðni. En Bandaríkjamenn virðast ekki á því að falla frá ákærunni á hendur Fischer fyrir að tefla við Spassky í Júgóslavíu árið 1992, sem álitið er brot á viðskiptabanni. Richard Boucher, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Washington, var spurður að því á fréttamannafundi seint í gær hvort að það kæmi til greina að hálfu Bandaríkjamanna að leyfa Fischer að flytjast til Íslands. Boucher sagði það íslenskra stjórnvalda að komast að niðurstöðu í því máli en rétt væri að ítreka og árétta að Bobby Fischer hefði verið ákærður í Bandaríkjunum og væri eftirlýstur. Ekki er hægt að skilja orð Bouchers öðruvísi en svo að Bandaríkjamenn hyggist fara fram á að Fischer verið framseldur. Davíð Oddsson var spurður um ákæruna á hendur Fischer í gærkvöldi og hvort hann teldi hugsanlegt að aðrar ástæður, eins og til að mynda gyðingahatur Fischers, kynni að vera skýringin á þeirri hörku sem Bandaríkjamenn sæktu málið. Davíð Oddson kvaðst ekki hafa trú á því en undraðist að hvorki Þjóðverjar né Frakkar, sem hefðu átt aðild að viðskiptabanninu á Júgóslavíu á sínum tíma, hefðu ekki séð ástæðu til að ákæra þýskan skákdómara eða Spassky, sem er með franskt vegabréf, fyrir þeirra þátttöku í skákinni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×