Menning

Bítlarnir nauðsynlegir mannkyninu

Frelsisandinn sem kom með Bítlunum inn í helfryst kaldastríðsumhverfi var mannkyninu nauðsynlegur. Þetta er mat höfundar Bítlaávarpsins sem segir tónlist sjöunda áratugarins hafa verið afl sem breytt hafi heiminum.

Rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson og Þorvaldur Þorsteinsson stóðu sig með ágætum á bak við búðarborðið í bókabúð Máls og Menningar á Laugaveginum í dag. Þar munu þeir þurfa að taka á honum stóra sínum í innpökkunum og kreditkortaviðskiptum næstu daga ásamt fleiri rithöfundum.

Einar Már var nýlega tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir nýjustu bók sína, Bítlaávarpið. Hún fjallar um einstakan tíðaranda sjöunda áratugarins og þá kynslóð sem þá var að vaxa úr grasi. Höfundurinn segir múrana á milli há- og lágmenningar þá hafa verið að brotna, frelsislöngun hafi verið ríkjandi í landinu og áhrif frá rokki og útlöndum hafi blandast við þá þjóðlegu einangrun sem hafi ríkt.

Og sá andi sem Bítlunum og fleirum fylgdi var mannkyninu beinlínis lífsnauðsynlegur í hinu helfrysta kaldastríðsumhverfi að mati Einars Más. Hann segist vera að reyna að miðla þessari sömu lífsgleði. „Þetta er ekki bók sem fjallar um Bítlana sem slíka heldur er þetta bara tónlist sem liggur í loftinu þegar þetta fók sem ég er að skrifa um er að vaxa úr grasi,“ segir Einar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×