Innlent

Fischer gæti fengið vegabréf

Fari svo að Bobby Fischer fái að fara til Íslands og nýti sér dvalarleyfi sem honum hefur verið boðið, er síður en svo öruggt að hann setjist hér að. Georg Lárusson, forstjóri Útlendingastofnunar segir að hugsanlega eigi Fischer rétt á svokölluðu útlendingavegabréfi. Það er veitt útlendingum sem hvorki eiga né geta orðið sér úti um vegabréf í heimalandi sínu. "Með slíku vegabréfi og dvalarleyfi hér gæti Fischer ferðast um að vild". Hrafn Jökulsson, varaforseti Skáksambands Íslands segir ólíklegt að Fischer setjist að hér á landi til langframa: "Markmið okkar hefur heldur aldrei verið að koma honum í íslenska landsliðið í skák, heldur að leysa þetta óleysanlega mál. Það verður Fischer í sjálfsvald sett hvar hann kýs síðan að vera." Miyoko Watai hin japanska unnusta Bobby Fischers skýrði frá því á blaðamannafundi í Tókíó í fyrrinótt að Fischer væri ánægður með að hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi. "Hann var mjög glaður að heyra þessar góðu fréttir, en óttast að Bandaríkin og Japan spilli málinu." Masako Suzuki, lögmaður Fischers segir hugsanlegt að Japan muni vísa honum úr landi og til Íslands. Fulltrúi japanska útlendingaeftirlitsins útilokaði ekki þann möguleika en sagði það erfitt því Fischer hefði ekki gilt vegabréf. Davíð Oddsson utanríkisráðherra segir að ef taflmennska Fischers hafi verið brot á viðskiptabanninu á Júgóslavíu, sé það brot fyrnt, samkvæmt íslenskum lögum.Þetta kom fram í viðtali Ríkisútvarpsins-hljóðvarps við Davíð í gær. Hann benti á að Íslendingar, rétt eins og Bandaríkjamenn, hafi tekið þátt í viðskiptabanninu sem sett var á Júgóslavíu 1992.  Utanríkisráðherra sagðii bandaríska sendiherranum frá ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar á miðvikudag. Hann segir engin formleg viðbrögð eða athugasemdir hafa borist frá bandarískum stjórnvöldum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×