Innlent

Hasssending stíluð á föðurinn

Tuttugu og tveggja ára maður hefur verið ákærður fyrir innflutning á fimmtán kílóum af hassi í félagi við föður sinn og tvo jafnaldra sína. Efnin flutti maðurinn í þremur skipaferðum frá Danmörku. Aðalmeðferð í málinu var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Fyrstu sendinguna flutti maðurinn inn í varadekki á bíl sínum. Hann fór með Norrænu til Danmerkur þar sem hann keypti tvö kíló af hassi í júní í fyrra. Fíkniefnin afhenti hann vini sínum sem tók að sér að selja hassið ásamt öðrum manni. Til að fjármagna fíkniefnakaupin tók hann bankalán. Í september sama ár fór maðurinn aftur til Danmerkur og keypti fimm kíló af hassi fyrir söluverðmæti frá síðstu ferð. Þar keypti hann einnig dekk og felgur til að fela hassið í. Hassinu kom hann fyrir í dekkjunum inni á hótelherbergi. Sjálfur sagðist hann ekki hafa verið í vandræðum með að koma efnunum fyrir í dekkjunum enda með fimm ára starfsreynslu á hjólbarðaverkstæði. Dekkin sendi hann með Dettifossi til Íslands og stílaði sendinguna á einn manninn sem einnig er ákærður í málinu. Í þriðju ferðina fór maðurinn í desember á síðasta ári og keypti hann þá átta kíló af hassi. Hann faldi hassið með sama hætti og í sendingunni á undan. Í þetta skipti stílaði hann sendinguna á föður sinn. Faðir mannsins var handtekinn þegar hann sótti dekkin á vöruhótel Eimskips í janúar síðastliðnum. Faðirinn segist ekki hafa vitað um hassið fyrr en hann var handtekinn. Hann hefði ekki haft grun um að hass væri í sendingunni sem var stíluð á hann, enda sonur hans bæði bindindismaður á áfengi og tóbak. Aðspurður hvort hann væri ekki syni sínum reiður fyrir að senda hassið á hans nafni sagðist hann vera búinn að fyrirgefa honum og hefði meiri áhyggjur af þeim vanda sem sonur hans væri staddur í. Hinir mennirnir tveir hafa játað sölu á hluta efnanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×