Innlent

Opna á innanlandsflug í Keflavík

Davíð Oddsson utanríkisráðherra hefur skýrt frá því að Íslendingar hafi boðist til þess á fundi hans og Colins Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að taka að sér auknar byrðar í rekstri Keflavíkurflugvallar. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, greip þennan bolta á lofti í umræðum um störf þingsins á fimmtudag og sagði að nú hefðu skapast nýjar aðstæður og réttast væri að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.Eftir því sem næst verður komist er þegar gert ráð fyrir innanlandsflugi í skipulagi Keflavíkurflugvallar. Leyfi til reksturs innanlandsflugvallar í Reykjavík rennur út árið 2016 en framtíð flugvallarins var ákveðin í umdeildri atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa í febrúar 2002. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir beitti sér sem borgarstjóri fyrir atkvæðagreiðslunni. Hún segir nú ,að fari svo að Íslendingar taki að sér stóran hluta kostnaðar við rekstur Keflavíkurflugvallar hafi skapast nýjar aðstæður: "Já mér finnst rétt að skoða málið upp á nýtt við þær aðstæður. Við getum tæplega rekið tvo flugvelli. Allavega finnst mér tilefni til að líta á málið aftur áður en lagt er í byggingu nýrrar flugstöðvar fyrir innanlandsflugið í Reykjavík." Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir enga ástæðu til að breyta um kúrs: "Ég tel að þetta breyti ekki málinu. Innanlandsfluginu er best fyrir komið í Reykjavík. Ef við þurfum að taka á okkur miklar skuldbindingar við rekstur Keflavíkurflugvallar eru hins vegar allt aðrar forsendur. Við verðum þá hugsanlega að stokka spilin upp að einhverju leyti." Sturla segir að eins og staðan sé nú sé flugvöllurinn rekinn á forsendum Varnarsamningsins. ""Þetta er ný mynd sem þarna myndi skapast. Aðalatriðið er það að við munum meta stöðuna þegar niðurstaðan liggur fyrir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×