Innlent

Bílslys kosta 20 milljarða árlega

Umferðarslys kosta samfélagið tuttugu milljarða árlega. Þetta kom fram í erindi Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi svæfingalæknis, á Umferðarþingi á fimmtudag. "Ég vildi vekja fólk til umhugsunar um hvað umferðarslys valda miklu líkamstjóni og dauðsföllum en líka eignatjóni því þetta eru sláandi tölur," segir Jón, sem lamaðist sjálfur fyrir sex árum í bílslysi sem annar ökumaður olli með glannalegum framúrakstri. "Eftir slysið fór ég að setja allar þessa tölur í nýtt samhengi. Til dæmis getum við sett dæmið þannig upp að að fyrir andvirði þess fé sem umferðarslys kosta okkur árlega væri hægt að kaupa allt íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði á þremur árum." Jón segir að rannsóknir bendi til þess að þar sem hámarkshraði sé virtur lækki hlutfall umferðarslysa um 40 prósent. Hann segir að mikil hugarfarsbreyting þurfi að eiga sér stað hjá íslenskum ökumönnum. "Ökumaður sparar þrjár mínútur á að keyra milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur ef hann keyrir á 110 kílómetra hraða í staðinn fyrir 90. Liggur mönnum svona lífið á?"



Fleiri fréttir

Sjá meira


×