Innlent

Óperusöngvarar sungu veisluboðið

Síminn vill ekki gefa upp hvað boð sem fyrirtækið hélt fyrir sína stærstu viðskiptavini í Ásmundarsafni í gærkvöld kostaði. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að boðið hafi verið mjög veglegt. Þegar Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, var spurð að því hver áætlaður kostnaður við veisluna hafi verið sagði hún: "Ég ætla ekki að gefa upp kostnaðinn." Aðspurð hvort það væri ekki óeðlilegt þar sem fyrirtækið sé í eigu ríkisins og sýsli með almannafé vildi hún lítið segja annað en að ríkið fengi nú rúmlega tvo milljarða króna frá fyrirtækinu árlega. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að óperusöngvarar hafi farið heim til forsvarsmanna stærstu viðskiptavina Símans og sungið til þeirra veisluboðið. Aðspurð hvort þetta væri rétt játaði Eva því. Hún sagði algengt að fyrirtæki byðu viðskiptavinum sínum í veislu til að efla tengslin við þá. Síminn hefði áður haldið svipað boð og það sem var í Ásmundarsafni. "Það er ekkert óvenjulegt við þetta," sagði Eva. "Sumir bjóða í golfferðir og aðrir í laxveiði. Við höldum boð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×