Innlent

Vilja hjúkrunarheimili í Vesturbæ

Borgaryfirvöld í Reykjavík og bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi vilja að reist verði 90 rýma hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Lýsislóðinni við Grandaveg. Fyrr á árinu gerðu sveitarfélögin sér vonir um að framkvæmdir gætu hafist í lok þessa árs, en málinu hefur lítið þokað áfram. Þórólfur Árnason borgarstjóri og Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sendu Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra bréf fyrir fáeinum dögum þar sem þrýst er á að viðræður um málið hefjist sem fyrst. Fyrirhugaður byggingareitur sé í eigu einkaaðila og muni ekki standa til boða, dragist að taka ákvörðun um byggingu heimilisins. Í bréfinu minna Þórólfur og Jónmundur á viljayfirlýsingu um málið frá árinu 2002. Í henni tók heilbrigðisráðherra jákvætt í hugmyndina. Áætlaður kostnaður við byggingu heimilisins er um einn milljarður króna. Sveitarfélögin tvö hafa lýst sig reiðubúin til að standa straum af 30 prósentum kostnaðarins. Ríkið þyrfti þá að borga um 700 milljónir króna og greiða fyrir rekstur heimilisins eins og tíðkast með hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Áætlaður byggingartími hjúkrunarheimilisins er um 14 til 16 mánuðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×