Innlent

Ríkið greiði miskabætur

Ríkið hefur verið dæmt til að greiða konu 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna mistaka sem urðu við brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum árið 1991. Konan fór fram á 22,6 milljónir króna í bætur. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi árið 2000 konunni sömu upphæð í bætur. Dómnum var hins vegar áfrýjað til Hæstaréttar. Þar var hann ógiltur og málið sent aftur fyrir héraðsdóm, sem lækkaði bæturnar í 500 þúsund. Þeim dómi var síðan áfrýjað til Hæstaréttar, sem nú hefur dæmt henni 1,5 milljónir króna í bætur. Konan fór í aðgerðina til að létta á þyngd brjóstanna. Eftir aðgerðina kom drep í hægra brjóstið. Hæstiréttur telur ósannað að vanræksla eða önnur saknæm mistök hafi valdið því að drep komst í brjóstið. Einnig er ósannað að saknæm mistök hafi orðið við eftirfarandi meðferð hennar. Ríkið var því ekki talið skaðabótaskylt vegna tjónsins sem hlaust af því að drep komst í brjóstið. Á hinn bóginn telur Hæstiréttur að mistök hafi orðið að því er varðar útlitslegan árangur aðgerðarinnar. Þau hafi valdið því að konan hafi þurft að gangast undir nokkrar lýtaaðgerðir til lagfæringar á þeim mistökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×