Innlent

Eldvörnum ábótavant á Reykjalundi

Fjárskortur kemur í veg fyrir að brunavarnir á endurhæfingarstöðinni Reykjalundi verði bættar strax. Slökkviliðið vill beita dagsektum, en þeim er ekki beitt nema öryggi fólks sé ógnað. Málið hefur tafist mánuðum saman í bæjarstjórn, sem þarf að veita heimild til dagsekta. Á þessu ári hefur slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sent 531 húseiganda athugasemdir vegna ónógra brunavarna. Af þeim hefur tæpur helmingur, eða 236, enn ekki gert nauðsynlegar úrbætur og hafa fengið frest. Að sögn Bjarna Kjartanssonar, framkvæmdastjóra forvarnardeildar slökkviliðsins, vofa dagsektir yfir níu af þeim 236 aðilum sem hafa látið undir höfuð leggjast að bæta úr eldvörnum en til slíkra þvingunaraðgerða er einungis gripið ef sýnt þykir að öryggi fólks sé ógnað. Þó ýmislegt hafi verið lagað í eldvarnarmálum er margt eftir, m.a. eru ekki komnar eldvarnarhurðir á milli allra hólfa. Helgi Kristjónsson, fjármálastjóri Reykjalundar, segir þá hafa verið vinna í málum sínum undanfarna mánuði. Ein af ástæðunum fyrir seinaganginum sé fjárskortur þó það sé kannski ekki góð ástæða til að bera við þegar um öryggi fólks sé að ræða. Dagsektarferlið er þó seinvirkt enda þarf viðkomandi sveitarfélag að samþykkja að til þess sé gripið. Í tilfelli Reykjalundar hefur bæjarstjórn Mosfellsbæjar ekki samþykkt að dagsektum verði beitt, þrátt fyrir að beiðni slökkviliðsins hafi legið á borði hennar frá byrjun júlí.  Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir að afstaða verði tekin á bæjarstjórnarfundi eftir tvær vikur. Slökkviliðið hefur einnig heimild í lögum til að beita lokunaraðgerðum, koma upp öryggisvakt eða gangast í að viðunandi brunavörnum sé komið upp á kostnað eigenda. Bjarni Kjartansson, framkvæmdastjóri forvarnardeildar slökkviliðsins, segir afar sjaldgæft að gripið sé til slíkra úrræða, enda geri öguð vinnubrögð góðrar stjórnsýslu það að verkum að slíkt er seinvirkt og ekki sérlega skilvirkt. Hann telur hins vegar brýna þörf á að slökkviliðið hafi heimild til beinna sekta, án íhlutunar bæjarfélags, í líkingu við sektir lögreglu fyrir hraðakstur og umferðalagabrot.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×