Innlent

Kerfi neðansjávargljúfra finnast

Kerfi stórfelldra neðansjávargljúfra hefur uppgötvast suður af Mýrdalsjökli. Talið er að eðjustraumar frá Kötluhlaupum og öðrum jökulhlaupum hafi myndað þau en ummerki slíkra eðjustrauma sjást allt að 250 kílómetra suður af landinu.  Þetta er sú mynd sem landsmenn hafa haft undanfarna áratugi af landgrunninu suður af Íslandi. En nú er búið að rannsaka hafsbotninn þarna nánar og kortleggja svæðið eins og það væri uppi á landi. Fjölgeisladýptarmælingar Hafrannsóknarstofnunarinnar undanfarin ár gefa nú miklu nákvæmari mynd af hafsbotninum, og það sem meira er: Þær sýna kerfi neðansjávargljúfra. Einar Kjartansson jarðeðlisfræðingur segir landslagið þar fjölbreytilegt, stórbrotið og óþekkt áður nema að litlu leyti. Þarna eru fjöll, dalir, gljúfur og farvegir sem eru allt upp í kílómeters breiðir, líklega grafnir af eðjustraumum. Það er einmitt þetta sem vekur mesta athygli vísindamanna, að gljúfrin virðast vera farvegir eðjustrauma. Þeir telja nú að það sem hafi grafið þessi neðansjávargljúfur séu jökulhlaup, eða öllu heldur sá mikli aur sem fylgi slíkum hlaupum. Setið í slíkum hlaupum getur orðið svo mikið að það er þyngra heldur en sjórinn að sögn Einars og því myndist þetta stórbrotna landslag. Gljúfrin eru beint framhald af Markarfljóti, Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Kúðafljóti. Í allar þessar ár hafa komið hamfarahlaup vegna eldgosa undir jökli en einnig hlaup sem skapast reglubundið vegna jarðhita undir jökli. Og vísindamenn telja að fleira forvitnilegt leynist umhverfis Ísland því aðeins hafi verið kannað lítið brot af íslenskri landhelgi með mælinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×