Innlent

Skúrað og skrúbbað

Híbýli við Kleppsveg og nágrenni eru nú þrifin hátt og lágt eftir sótið og reykinn sem fylgdi brunanum í Hringrás á dögunum. Guðmundur Vignir Hauksson sem á og rekur hreingerningaþjónustuna Þrif og þvott vinnur talsvert fyrir tryggingarfélögin og honum var falið að þrífa nítján stigaganga hátt og lágt. "Við bara vorum að byrja," sagði hann í samtali við Fréttablaðið í gær. "Það er mjög misjafnt ástand hérna, sums staðar eru nýleg teppi og nýlega búið að mála og þá er þetta lítið mál. Þar sem gömul teppi eru og langt er síðan málað var erum við lengur að. Þá er náttúrulega gamall skítur í þessu líka sem auðvitað þarf að þrífa í leiðinni." Að jafnaði tekur það tvo menn einn dag að þrífa einn stigagang en sex menn eru að störfum á vegum Guðmundar. Hann hefur ekki fengið jafn umfangsmikil verkefni áður en þreif nokkur hús í kringum Laugaveg 42 þegar þar brann um árið. Að sögn Guðmundar er lítil sem engin lykt í stigagöngunum og verða þeir sem nýir eftir að hann hefur farið um þá með tuskum sínum og tækjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×