Innlent

Sveitarfélögin þurfa 3-4 milljarða

Sveitarfélögin telja sig þurfa tekjuhækkun sem nemur tveimur þriðju af skattalækkun ríkisstjórnarinnar nú um áramótin. Sveitastjórnarmenn vonast til að ríkisvaldið kynni hvað það býður á aukalandsþingi sveitarfélaganna á morgun.  Fulltrúar sveitarfélaganna funduðu með fulltrúum ríkisvaldsins í gær um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitafélaga. Sveitarfélögin hafa ekki sett fram formlega kröfu á hendur ríkinu en ljóst er þó að talsmenn þeirra telja grundvallaratriði að brúað verði það bil sem er milli tekna og gjalda en það er 3-4 milljarðar króna. Ríkið hyggst um áramót lækka tekjuskatt um eitt prósentustig en það jafngildir um fimm milljörðum króna. Það lætur því nærri að sveitarfélögin þurfi tvo þriðju af þeirri skattalækkun til sín til að ná endum saman. Ríkið hefur engar tillögur sett fram um hvernig það hyggst mæta óskum sveitarfélaganna. Sveitarstjórnarmenn vonast þó til að félagsmálaráðherra komi ekki tómhentur til aukalandsþings sveitarfélaganna á morgun og leggi þar fram ákveðið tilboð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×