Innlent

Matur miklu dýrari á Norðurlöndum

Matur er miklu dýrari á Norðurlöndum en að meðaltali í Evrópusambandslöndunum. Samkeppnisyfirvöld allra norrænu ríkjanna rannsaka nú sameiginlega hvers vegna.  Það er ekki bara á Íslandi sem er kvartað undan því hvað maturinn er dýr. Matvöruverð á á öllum Norðurlöndum er frá fjórðungi og upp í helmingi hærra en að meðaltali í Evrópusambandinu. Ísland og Noregur skera sig úr þar sem matvöruverð er 56% hærra en meðaltalið í Evrópusambandinu. Í Danmörku kostar maturinn 41% meira, í Svíþjóð 24% meira og í Finnlandi 23% meira. Þetta eru tölur frá hagstofu Evrópusambandsins. Staðreyndin er sú að meðal-Evrópusambandsbúinn fær eitt og hálft brauð fyrir sama pening og Íslendingur fær aðeins eitt brauð fyrir. Að sama skapi fær Evrópusambandsbúinn einn og hálfan lítra af mjólk fyrir sama pening og Íslendingur fær aðeins einn lítra fyrir. Það munar um minna. Ástæðan fyrir því að Finnland og Svíþjóð eru þarna með lægsta vöruverðið á Norðurlöndum er fyrst og fremst vegna þess að þessi tvö lönd eru með lægstu skatta á matvæli. Matarskattar og vörugjöld á Íslandi og í Danmörku eru hins vegar sambærileg. Skýringin á því að á Íslandi kostar maturinn meira en í Danmörku er talin sú að við flytjum meira af matvörum inn, og það er dýrara. Samkeppnisyfirvöld Norðurlandanna leggja nú saman krafta sína til að rannsaka ástæður þessa. Er það skoðun samkeppnisyfirvalda að stór hluti skýringarinnar á háu verðlagi á Norðurlöndum sé lítil samkeppni og samþjöppun. Niðurstöður eiga að liggja fyrir í september á næsta ári og einnig tillögur og hugmyndir um úrbætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×