Innlent

Fullreynt að ná sáttum

Magnús Brandsson, sparisjóðsstjóri í Ólafsfirði, segir að brýnt hafi verið að nútímavæða Sparisjóð Skagafjarðar, sem áður hét Sparisjóður Hólahrepps. Sparisjóðurinn hafi verið lítill með sterkar rætur í sveitinni en þegar nýir stofnfjáreigendur hafi komið inn hafi þeir viljað nútímavæða sjóðinn. Það hafi haft áhrif á tilfinningar gamalla stofnfjáreigenda og oft hafi verið erfitt að ræða málin. Fullreynt hafi verið að ná sáttum. Gjáin hafi verið svo djúp. Á stjórnarfundi sparisjóðsins í vikunni var stór hluti af stofnfé KS seldur til stjórnenda KS og FISK og eiginkvenna þeirra auk Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Sparisjóðs Mýrasýslu til að atkvæðin nýttust sem best á fundi stofnfjáreigenda. Valgeir Bjarnason, fv. stjórnarmaður, taldi um ólöglegan gjörning að ræða. Á fundi stofnfjáreigenda daginn eftir var nafni sparisjóðsins síðan breytt, stofnféð aukið um 66 milljónir og ný stjórn kosin. Valgeir taldi um yfirtöku að ræða en því hafnar Magnús algjörlega. "Það voru tveir listar í framboði. Gömlu stofnfjáreigendurnir lögðu sinn lista fram fyrirfram og báðu um listakosningu. Þeir röðuðu sér á þann lista. Á hinum listanum mynduðu nýju stofnfjáreigendurnir lista með hæfu fólki. Þarna voru fagaðilar sem vita allt um viðskipti og hafa reynslu í viðskiptaheiminum," segir Magnús. Sparisjóður Skagafjarðar er rúmlega aldar gamall. Hann var rekinn "í skúffu hjá einum bóndanum í sveitinni" fram til 2000, að sögn Magnúsar. "Hann var líklega eina fjármálastofnunin í heiminum sem var varin gegn 2000 vandanum því að það var engin tölva. Síðan kom KS inn og aðrir stofnfjáreigendur út af innheimtuverkefni fyrir Íbúðalánasjóð. Þetta verkefni varð þess m.a. valdandi að hluti Íbúðalánasjóðs var fluttur á Sauðárkrók og skapaði þetta 15-17 störf auk margfeldisáhrifa. Fjármálastofnun með 22 milljónir í stofnfé getur ekkert gert. Valið stóð milli þess að loka eða auka stofnfé. Við tókum þá ákvörðun að byggja upp frekar en deyða."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×