Innlent

Mafían í Nígeríu undir smásjána

Talsvert er um smygl á eiturlyfjum og fólki frá Nígeríu og öðrum löndum Vestur-Afríku til hinna Norðurlandanna, sérstaklega Danmerkur og Svíþjóðar. Einkum hefur smygl á konum í vændi farið vaxandi. Íslenska lögreglan telur ástæðu til að fylgjast með og taka þátt í rannsókn á þessari þróun þó að yfirvöld hérlendis hafi lítið sem ekkert orðið vör við smygl á fólki hingað til lands. Rannnsókn íslensku lögreglunnar mun því fyrst og fremst beinast að fjársvikamálum en þau koma upp reglulega og fara þá í rannsókn hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra og lögreglunni í Reykjavík. "Það má segja að með þessu sé verið að setja Vestur-Afríku og skipulagða glæpastarfsemi undir smásjána í meira mæli en verið hefur, en borið hefur á því að vændi og eiturlyf hafi verið að aukast á hinum Norðurlöndunum. Hér á landi hefur sést fólk frá Vestur-Afríku sem vaknað hafa grunsemdir um en ekki í þeim mæli að það sé neitt vandamál hér. Við njótum þess hve lítið land og einangrað við erum. Við erum meira í þessu samstarfi til fróðleiks og upplýsingar," segir Smári Sigurðsson, yfirmaður alþjóðadeildar hjá Ríkislögreglustjóra. Ákveðið var að fara í þetta átaksverkefni á fundi norrænu lögregluembættanna hér á landi í haust og er verkefnið því aðeins nýhafið. Smygl á fólki og eiturlyfjum frá Afríku hefur farið sívaxandi í Evrópu á síðustu árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×