Innlent

Bónus gefur 20 milljónir

Bónus hefur ákveðið að færa Hjálparstarfi kirkjunnarog Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur 20 milljónir króna að gjöf. Féð verður notað til að aðstoða þá sem við bágust kjör búa nú þegar jólahátíðin er framundan. Gefin verða fjögur þúsund gjafabréf frá verslunum Bónuss, hvert að andvirði 5.000 krónur. Rétthafar bréfanna geta keypt vörur að eigin vali í Bónus. Kaupa þarf fyrir alla upphæðina í einu. Tvö ár eru síðan Bónus gaf þessum sömu félögum 25 milljónir króna og segir Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Bónusi, að honum sé vel ljóst að neyðin sé víða mikil hjá fjölskyldum um land allt. Hann segir að eigendum fyrirtæksins sé mikils virði að geta látið gott af sér leiða. Bónus hafi notið mikillar velgengni og velvildar í gegnum árin og fyrir það sé vert að þakka með þessum hætti. ,,Við fáum geysilega mörg bréf og símtöl með óskum um stuðning við fjölskyldur og einstaklinga og þykir okkur eðlilegra að láta fagfólk útdeila þessu fé því það þekkir aðstæður fólks betur en við,“ segir Jóhannes um gjöfina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×