Innlent

Hátt matvælaverð rannsakað

Samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndunum ætla að hefja sameiginlega rannsókn á því að matvæli á Norðurlöndum eru miklu dýrari en að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins, jafnvel þótt Finnland, Svíþjóð og Danmörk séu í sambandinu. Samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins skera Ísland og Noregur sig úr þar sem matvöruverð er 56 prósentum hærra en í Evrópusambandinu. Hluta þess má rekja til hærri virðisaukaskatts en annars staðar. En aðild að sambandinu er ekki lykilorð því matvara er 23 prósentum dýrari í Finnlandi, 24 prósentum dýrari í Svíþjóð og 41 prósenti dýrari í Danmörku en í öðrum ESB-löndum. Hagstofa Evrópusambandsins bendir á að með inngöngu nýrra ríkja í sambandið hafi meðaltalsverðið lækkað nokkuð því matvæli í Tékklandi og Póllandi séu mun ódýrari en meðaltalið, svo dæmi séu tekin. Sameiginlegur starfshópur samkeppnisyfirvalda allra landanna á meðal annars að rannsaka samþjöppun eignarhalds í matvöruverslun, eða fákeppni, og minnkandi vöruúrval, sem getur átt sömu rætur. Ítarleg skýrsla um málið á að liggja fyrir innan árs, að sögn Jótlandsposten.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×