Innlent

Virkar stjórnir beri ábyrgð

"Með virkum stjórnum má fullyrða að fáist betri fyrirtæki," segir Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, en í tengslum við samráð olíufélaganna hefur ábyrgð stjórnarmanna fyrirtækja borist í tal. Elvar telur þróunina síðustu ár hafa verið að stjórnarmenn átti sig á ábyrgð sinni og að þeim beri sjálfum að bera sig eftir upplýsingum í stað þess að láta framkvæmda- eða forstjóra mata sig. "Þeir eru ekki bara ábyrgir fyrir því sem borið er á borð fyrir þá. Æðsta stjórn fyrirtækja er hjá stjórnarmönnunum og þeir bera þar af leiðandi mesta ábyrgð." Elvar Steinn segir þróunina síðustu ár hafa verið frá því umhverfi að stjórnir fyrirtækja væru hálfgerðar tedrykkjusamkomur. "Erlendis hefur þróunin verið í þá átt að til verða faglegir stjórnarmenn sem fá greitt miðað við ábyrgð, en hér kann að vera að stjórnarmönnum hafi ekki verið greitt nægilega vel." Elvar telur til mikilla bóta að vera með fólk í stjórn sem situr þar af fagmennsku og í raun hag allra að leiðarljósi. "Þá bæði hluthafa, starfsmanna, viðskiptavina og jafnvel byrgja líka."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×