Innlent

Fyrir hinn vinnandi mann

Þingmenn tókust harkalega á um skattalækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar í dag. Fjármálaráðherra segir að með frumvarpinu sé komið til móts við hinn vinnandi mann, en stjórnarandstaðan segir skattaleiðangur stjórnarinnar vera glapræði. Formaður Samfylkingarinnar segir Framsóknarflokkinn einn flokka vera á móti lækkun virðisaukaskatts á matvöru. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir í dag. Samkvæmt því verður tekjuskattur lækkaður um 4 prósentustig á næstu þremur árum, eignaskattur afnuminn, persónuafsláttur hækkaður og barnabætur sömuleiðis. Geir sagði megininntakið það að lækka skattana á venjulegu vinnandi fólki og hann sæi ekki hvað væri að því. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði hins vegar skattaleiðangur ríkisstjórnarinnar glapræði. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar tók í sama streng og sagði obba skattalækkananna eiga að koma rétt fyrir kosningar og verið væri að um margnotað kosningaloforð væri að ræða. Össur segir þó að hækkun barnabóta sé ljós punktur í frumvarpinu en finnst rangt að eignaskattur sé afnuminn strax en barnabætur hækkaðar í lok kjörtímabilsins. Þá sagði Össur að hátekjumenn fengju mun meira út úr þessum skattalækkunum en lágtekjufólkið. Hann segir meiri jöfnuð fólginn í að lækka virðisaukaskatt af matvælum og að sú hugmynd njóti bullandi stuðnings á Alþingi. Hann segir Framsóknaflokkinn einan flokka hafa lagst gegn lækkun virðisaukaskattsins. Pétur Blöndal óskaði fjármálaráðherra og þjóðinni til hamingju með frumvarpið í dag og sagðist hann æstur yfir því hve fallegt þetta frumvarp væri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×