Innlent

Tjónið virðist lítið

Ótrúlega lítið tjón virðist við fyrstu sýn hafa orðið á fyrirtækjum og heimilum í nánd við brunann. Íbúar á svæðinu geta þó fundið fyrir áhrifum síðar. Þegar hæst stóð í nótt sást varla í höfuðstöðvar Olís við Sundagarða vegna reykjarmökks og í dag blöktu sótsvartir fánar við höfuðstöðvarnar. Brunabjallan gall við inni í mannlausu húsinu, og ástandið leit ekki vel út. En þegar starfsmenn félagsins mættu til starfa síðdegis kom í ljós að betur fór en á horfðist. Ragnheiður B. Guðmundsdóttir, starfsmannastjóri OLÍS, segir að fyrirtækið hafi sluppið ótrtúlega vel vegna snarræðis þeirra sem að komu í nótt. Skammt frá, hjá Kassagerðinni, varð að hætta framleiðslu þegar verksmiðjan var rýmd. Í dag varð slökkviliðið að reykræsta og ljóst er að framleiðsla hefst ekki strax. Hjá Kassagerðinni vildu menn alls ekki fá myndatökumenn Stöðvar 2 í heimsókn. Hátt í 600 manns þurftu að yfirgefa heimili sín í skyndingu í gærkvöldi af ótta við eitraðan reyk frá brunanum og eru flestir þeirra nú á komnir eða á leið heim, þeirra á meðal Einara Sigurbjörg Einarsdóttir. Í stigaganginum heima hjá henni, á Kleppsvegi 34, var megn reykjarfnykur og sót á handriðinu en í íbúðinni var lítil ummerki að sjá. Hún segir að það sem fyrst og fremst hafi verið að þegar hún kom aftur heim hafi verið lyktin. Eins hafi verið töluvert sót í stigaganginum. Slökkviliðsmenn fóru á milli íbúða og könnuðu hvort að nauðsynlegt væri að reykræsta, sem reyndist ekki vera. Þeir sögðu víðast hvar brunalykt en ekki meira og að fólki ætti að reynast nóg að opna glugga og svaladyr. Ellý Guðmundsdóttir hjá Umhverfis- og Heilbrigðisstofu, varar þó við því að fólk geti hugsanlega fundið fyrir afleiðingum reyks og sóts síðar. Hún segir ákveðin einkenni geta komið strax fram, en einnig geti einkenni gert vart við sig allt að 2-3 dögum síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×