Innlent

Ráðherrar ákveða næstu skref

"Ákvörðun um næstu skref verður tekin á ráðherrafundinum 24. nóvember næstkomandi," segir Helgi Jensson, forstöðumaður á framkvæmda- og eftirlitssviði Umhverfisstofnunar, um hver áhrif niðurstaðna alþjóðlega rannsóknarhópsins um hlýnun á norðurslóðum verða. Helgi er jafnframt formaður AMAP-vinnuhópsins sem er undir stjórn Norðurheimskautsráðsins og er einn hópanna sem falið var að vinna skýrsluna um hlýnun við Norðurskautið. Fundurinn sem Helgi vísar til er fundur utanríkisráðherra ríkjanna átta sem mynda Norðurheimsskautsráðið, en á honum verða rædd viðbrögð við skýrslu ACIA um áhrif hlýnunarinnar sem fyrirséð er. "Við vitum ekki hvaða ákvarðanir verða teknar á þeim fundi, hvort rannsóknir verða auknar eða hvort ákveðið verður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessar ákvarðanir eru algjörlega á hendi ráðherranna. Við leggjum bara fram gögnin um hvað komi til með að gerast verði ekkert að gert," bætti hann við. Í inngangi skýrslu vísindamannanna kemur fram að um sé að ræða hóflega framtíðarspá um aðstæður sem byggi á fyrirliggjandi gögnum, en ekki lýsingu á verstu aðstæðum sem uppi gætu orðið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×