Innlent

Verulegur kraftur í gosinu

Verulegur kraftur hefur verið í eldgosinu í Grímsvötnum í dag þótt hann sé talinn heldur minni en í gær. Magnaðar myndir náðust af gígbarminum í leiðangri jeppamanna. Friðrik Þór Halldórsson, kvikmyndatökumaður Stöðvar 2, var í hópi leiðangursmanna.  Þeir voru þrír sem lögðu af stað akandi úr Reykjavík þegar um tíuleytið í fyrrakvöld þegar staðfest var að eldgos væri hafið. Þeir Sigmundur Sæmundsson og Jón Ólafur Magnússon fóru ásamt myndatökumanni Stöðvar 2, Friðriki Þór Halldórssyni. Þeim gekk reyndar erfiðlega að komast að jöklinum, festust í Jökulá, og voru þeir ekki komnir að eldstöðinni fyrr en klukkan tvö í gærdag eftir sextán stunda akstur úr borginni. En ferðalagið var þess virði. Aðspurður um hvað standi standi upp úr við þetta gos og aðdraganda þess segir Páll Einarsson prófessor að það sé staðfestingin á því að gos geti komið í kjölfar hlaups. Hann segir að vitað hafi verið að eldstöðin var tilbúin til að gjósa og að hlaup væri tilbúið að fara af stað og að mjög athyglisvert hafi verið að fylgjast með samspilinu þarna á milli. Páll segir þetta líklega í fyrsta sinn sem tekist hafi að segja fyrir um atburðarásina með löngum fyrirvara, „miðtímafyrirvara“ og skammtímafyrirvara. Páll segir gosið hafa verið nokkuð stöðugt í dag en krafturinn hafi verið ívið minni en í gær.  Hægt er að horfa á hinar mögnuðu myndir af gosinu með því að smella á hlekkinn hér að neðan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×