Innlent

Búfé á gjöf vegna goss

Öllu fé var smalað og það sett inn á gjöf á Möðrudal á Möðrudalsöræfum í gær, að sögn Önnu Birnu Snæþórsdóttur húsfreyju. Þegar bændur þar komu út í gærmorgun var komið talsvert öskufall af völdum gossins í Grímsvötnum. Mátti greinilega sjá það á gluggarúðum og bílum, auk þess sem það sást á jörðu. Halldór Runólfsson yfirdýralæknir sendi út viðvörun í gær vegna öskufalls og hættu á flúoreitrun. Er fólki ráðlagt að hýsa búfénað sinn ef öskufalls gætir, en að sögn Halldórs er hlutfallslega mikið magn af flúor við Grímsvötn. "Við erum með féð við beitarhús, látum það ganga við opið en gefum því vel inni, þannig að engin hætta sé á að það sé að taka í jörð," sagði Anna Birna, sem er ásamt bónda sínum með á þriðja hundrað fjár. Þá lá fyrir í gær að fara með heyrúllur til hrossanna sem eru um 20 talsins. Örn Bergsson, bóndi að Hofi í Öræfasveit, sagði menn þar viðbúna að taka fé sitt ef vindátt snérist þannig að gosmökkurinn bærist yfir héraðið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×