Innlent

Fækkar ef dregur úr karlmennsku

Nauðgunum fækkar ef dregið er úr karlmennskudýrkun í samfélaginu. Þetta segir mannfræðingur sem leitar svara við því í meistararitgerð sinni af hverju karlmenn nauðga. Hún segir nauðganir algengar á Vesturlöndum, en fátíðar í menningarsamfélögum þar sem er jafnræði milli kynjanna. Kveikjan að rannsókn Guðrúnar M. Guðmundsdóttur, mannfræðings segir hún vera Eldborgarhátíðina sem haldin var um verslunarmannahelgina fyrir 3 árum. Þar voru 13 nauðganir tilkynntar til lögreglu og segir hún alla umræðu í kjölfarið hafa verið undarlega. Ekkert hafi verið rætt um gerendur, heldur einungis fórnarlömbin og atburðina sjálfa. Hún segir tölfræði sýna að það séu karlmenn sem í nánast öllum tilfellum séu gerendur í nauðgunarmálum. Stóra spurningin sé af hverju nauðga karlmenn. Hún segir að út frá hugmyndum um karlmennsku komi það kannski ekki á óvart. Hugmynd karlmennsku sé til að mynda stjórnsemi og samkeppni. Hún segir tilveruna vera karllæga og að allt sem tengist yfirráðum sé tengt við karla og undirgefni vera tengda konum. Hún segir að í sumum menningarsamfélögum þar sem jafnræði sé mikið á milli kynjanna séu nauðganir fátíðar, en að í vestrænum samfélögum séu þær mjög algengar. Hún telur að það sé hægt að útrýma nauðgunum. Til þess þurfi að draga úr upphafningu á karlmennsku. Hún telur þó ekki að hún muni upplifa slíka draumaveröld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×