Innlent

Hvetur fólk til meiri vinnu

Deilt var á Geir Haarde fjármálaráðherra í umræðum um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í dag. Geir var sakaður um að hygla hálauna- og stóreignafólki með skattalækkunum en láta hina sitja eftir. Ráðherra svaraði því til að þessu fyrirkomulagi væri ætlað að hvetja fólk til að vinna meira. Geir sagði markmiðið vera að minnka jaðaráhrifin í skattkerfinu og gera það meira eftisóknarvert að afla sér meiri tekna. „Með öðrum orðum; þetta eru vinnuhvetjandi aðgerðir. Þær hvetja til þess að vinnuframboð aukist,“ sagði Geir á Alþingi í dag. Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði skýringar fjármálaráðherra á þeirri leið sem ríkisstjórnin valdi ágætar. Það væri göfugt markmið út af fyrir sig að hvetja hátekjumenn til að vinna meir. Og fjármálaráðherra sagði málfutning um ríkisfjármálin hafa verið villandi undanfarna daga, þar sem því hafi verið haldið blákalt fram að allt hefði farið úr böndunum undanfarin ár og afkoman orðið áttatíu milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ráðherrann sagði afar villandi að bera saman fjárlögin og endanlega niðurstöðu í ríkisreikningi vegna ýmissa óreglulegra liða og sérstakra aðstæðna. Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður segir að sama ríkisstjórn hafi kynnt sérstaka breytingu árið 1996 sem gerði þetta tvennt samanburðarhæft. Hann segir að fjármálaráðherra sjálfur hafi notað þennan samanburð í þinginu í dag en í því samhengi sem henti honum. „Svo má einnig rifja það upp að árið 1996 lagði þessi sama ríkisstjórn fram frumvarp til fjárreiða ríkisins þar sem stendur orðrétt að sú breyting, sem var gerð þá, geri að verkum að fjárlög og ríkisreikningur verði að fullu samanburðarhæf. Þetta stendur berum orðum í frumvarpi þessarrar sömu ríkisstjórnar sem Geir H. Haarde tilheyrir,“ segir Ágúst Ólafur.  


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×