Innlent

Hæstiréttur gekk fulllangt

Lagaprófessorarnir Eiríkur Tómasson og Stefán Már Stefánsson stóðu að mati Hæstaréttar öðrum umsækjendum töluvert framar að hæfni, en ráðherra segir dóminn hafa gengið fulllangt í mati sínu. Geir Haarde, settur dómsmálaráðherra, segir reynslu Jóns Steinars af lögmannsstörfum og málflutningi gera hann hæfastan umsækjenda. Að mati Hæstiréttar stóðu þrír umsækjendur Jóni Steinari framar.  Spurður hvort skipan í embætti hæstaréttardomara sé ekki geðþóttaákvörðun ráðherra hverju sinni, og því óþarfi að fá umsögn frá Hæstarétti segir Geir svo ekki vera. Umsögnin geri það einmitt að verkum að ekki sé hægt að taka geðþóttaákvörðun í þessu. Þar sé í fyrsta lagi fjallað um hvort menn séu hæfir yfirleitt og því ekki hægt að skipa óhæfan mann í embættið. Í öðru lagi er í umsögn Hæstaréttar farið út í hæfnismat þar sem Geir telur að gengið sé fulllangt að þessu sinni.  Ráðherra segir að vissulega megi gagnrýna það kerfi sem unnið sé eftir við ráðningu dómara, en til að breyta því þurfi jafnframt að breyta lögum. Hann telur sig hafa frjálsar hendur svo lengi sem ákvörðun hans sé málefnalega rökstudd og svo sé. Ráðherra hefur hvort tveggja fengið í hendur greinargerð frá Jóni Steinari um umsögn Hæstaréttar og yfir 120 félagar Jóns Steinars úr lögmannsstétt skrifuðu undir yfirlýsingu honum til stuðnings. Geir segist ekki hafa gert mikið með það og reyndar ekki litið á þá undirskriftarlista sem honum voru sendir. „Ég tel ekki gott í þessu ferli að menn séu að senda mér eða veitingarvaldinu einhverjar áskoranir af þessu tagi,“ segir ráðherra og bætir við að menn verði að fá að vinna svona verk í friði. Aðspurður segist Geir gera ráð fyrir að einhverjir muni gagnrýna skipanina vegna tengsla Jóns Steinars við Sjálfstæðisflokkinn því þá hverfi hann af síðum dagblaðanna og verði ekki áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Jón Steinar Gunnlaugsson, sem tekur við embætti hæstaréttardómara þann 15. október, segist taka við embættisveitingunni með auðmýkt í hjarta og vonar að hann nái að uppfylla þær ríku kröfur sem gerðar eru til embættisins.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×