Innlent

Netumferð minnkar um 40%

Gagnaumferð á Netinu hér á landi hefur minnkað um 40% eftir aðgerð lögreglunnar og samtaka höfundarrétthafa í gær þar sem hald var lagt á tölvur og gögn í tólf húsleitum. Þetta kemur fram á Heimur.is.  Á vefsíðu Reykjavik Internet Exchange (RIX), sem er skiptistöð íslenskra internetþjónustuaðila, kemur fram að minnkun á umferð er sláandi mikil þegar bornir eru saman dagurinn í dag og gærdagurinn. Heildarálag um gígabit-sambönd RIX var t.d. um 360 megabitar á sekúndu klukkan 14 í gær, en á sama tíma í dag var sambærileg tala einungis u.þ.b. 220 megabitar á sekúndu. Minnkunin er því verulega mikil. Þegar umferð á vegum einstakra netþjónustuaðila er skoðuð sést að umferð um netkerfi þeirra sem veita einstaklingum þjónustu, t.d. Símnet, Línu.net og Íslandssíma minnkar verulega, á meðan umferð á vegum fyrirtækja sem sinna aðallega öðrum fyrirtækjum, t.a.m. Skýrr, er mun stöðugri milli daga. Á Heimur.is segir að ekki sé óskynsamlegt að álykta að stærsta orsök þessarar minnkunar á gagnaumferðinni sé lokun á tengipunktum skráardreifenda og þess að fólk haldi að sér höndum af ótta við aðgerðir lögreglu. Það þýðir að gagnaumferð vegna skráaskipta - munurinn á umferðinni klukkan 14 í dag og í gær - hafi numið um 140 megabitum á sekúndu um miðjan dag í gær. Það er 39% allrar gagnaumferðar á íslenska Netinu á þeim tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×