Menning

Góðir skór og vilji allt sem þarf

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson ætlar að fara alla leið til Minneapolis í Bandaríkjunum til að taka þátt í maraþonhlaupi. Það er þó ekki hvaða maraþonhlaup sem er því Twin City maraþonið er heimsfrægt og hefur verið kjörið fallegasta maraþon Bandaríkjanna. Hann hefur stundað útihlaup undanfarin tvö ár." Mér finnst hlaupin ákjósanlegur lífstíll. Þetta er góð leið til að halda sér í formi, kostar ekki mikið og er hægt að gera hvenær sem er, hvar sem er. Það eina sem þarf er góðir skór og viljinn til að skokka af stað. Ég hleyp til að geta borðað það sem ég vil og svo auðvitað til að halda mér í formi, því þetta er gott bæði fyrir sál og líkama. Mikið hugsað á löngum hlaupum. Ég hef hlaupið nokkuð stíft undanfarið til að æfa mig fyrir maraþonið en er nú farinn að slaka aðeins á til að safna kröftum fyrir stóra daginn. Það er fínt að hafa eitthvað markmið til að stefna að. Ég valdi Twin City maraþonið af ýmsum ástæðum. Það er á góðum tíma ársins, það er auðvelt að komast til Minneapolis því Flugleiðir fljúga beint og leiðin sem hlaupin er, er mjög falleg. Það er hlaupið um átta vötn og meðfram Mississippi ánni." Twin City maraþonið er kennt við tvíburaborgirnar Minneapolis og St. Paul og hefur verið hlaupið í rúm tuttugu ár. Árlega tekur mikill mannfjöldi þátt í því, þar á meðal fjöldi Íslendinga sem notar tækifærið og sameinar hlaupin og verslunarferðir. En Þorvaldur hefur fleiri ástæður til að fara í Twin City maraþonið."Ég á ættingja í Minneapolis og þetta byrjaði sem áskorun milli okkar frænda, en endar svo með því að við fljúgum nokkur út til að hlaupa" Þorvaldur hefur ekki tekið heilt maraþon áður en hefur hlaupið hálfmaraþon, bæði í Reykjavík og annars staðar. "Ég hlakka mikið til, og þá sérstaklega til að sjá hvort ég kemst í mark nær lífi en dauða." Twin City maraþonið er 3.október.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×