Innlent

Aðför að stéttarfélögum sjómanna

Nýtt útgerðarfélag utan um ísfiskstogarann Sólbak frá Akureyri er háalvarleg aðför að stéttarfélögum sjómanna, segir Árni Bjarnason, forseti Farmanna og fiskimannasambands Íslands og formaður í félagi skipstjórnarmanna. "Þetta er það grófasta sem ég hef horfst í augu við í kjaramálum sjómanna," segir Árni.Hann segir málaferli koma til greina ef ekki gangi að sporna við breytingunni með öðrum hætti. "Ég bind mestar vonir við að Alþýðusambandið komi að málunum og félög innan þess neiti að afgreiða skipið. Það væri öflugustu viðbrögðin," segir Árni. Hann segir erfitt að sjá hvernig fyrirtækið ætli að vera með annan fótinn innan Landssambands íslenskra útvegsmanna en hinn úti. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri útgerðarfyrirtækisins Brims eiganda rekstrarfélags Sólbaks, segir möguleika á að allt fyrirtækið verði dregið út úr LÍÚ. "Ég hef þá trú að útgerðarmaðurinn og sjómaðurinn verði að geta talað saman og rætt framtíðina, sem er útgerðin. Hvort sem það er í gegn um heildarsamtök eða ekki verður að koma í ljós," segir Guðmundur. Árni segir eðlilegra ef Guðmundur hefði samið við samtök sjómanna um kjör. "Í staðinn stillir hann körlunum sínum upp með hótunum og notar verstu leið gagnvart þeim til að ná sínum markmiðum fram," segir Árni: "Áhöfnin á Rauðanúpi sem heitir nú Sólbakur var að flosna upp við rækjuveiðar því enginn grundvöllur er fyrir þeim lengur. Sjómennirnir sáu fram á atvinnuleysi. Þeir voru því kjörin fórnarlömb til að stilla upp við vegg og láta þá ganga að hugmyndum fyrirtækisins," segir Árni. Guðmundur segir útgerðina hafa beðið forystumenn sjómanna um nútímalegri kjarasamninga í byrjun júlí og aftur í september. Þeir hafi ekki tekið undir þær óskir. Samningarnir hafi því verið gerðir án þeirra aðkomu. "Ef heildarsamtök sjómanna ætla að standa á móti tækninýjungum þá verða menn ekkert inni í samtökunum. Forystumenn sjómanna átta sig ekki á að það er félagafrelsi á Íslandi, bæði fyrir sjómenn og útgerðir," segir Guðmundur. Sjómenn Sólbaks standi utan verkalýðsfélaga. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×