Innlent

Vilja meiri tekjur

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir löngu kominn tíma á að nefnd félagsmálaráðuneytisins sem á að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna komist að niðurstöðu og skili af sér hugmyndum um hvernig hægt sé að koma sveitarfélögunum til bjargar. Hún segir slíkar tillögur verða að liggja fyrir þegar fjármálaráðstefna sveitarfélaganna fari fram í nóvember eða í síðasta lagi fyrir áramót. Mosfellsbær er eitt átján sveitarfélaga á landinu sem hefur fengið bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna vegna bágrar fjárhagsstöðu. Ragnheiður segir að sveitarfélögin verði að fá fleiri tekjustofna. Nú hafi þau skatttekjur af íbúum, leggi á fasteignagjöld og þjónustugjöld. Það sé hins vegar ekki nóg þar sem sveitarfélögin sinni svo stórum verkefnum. ,,Af hverju getur hluti af bensíngjaldi, sem dæmi, ekki runnið til sveitarfélaganna?" Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri á Blönduósi, segist fagna samkomulagi félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra við sveitarfélögin þótt hún sjái þar ekkert fast í hendi. Blönduós er eitt af mörgum sveitarfélögum sem eru fjárhagslega illa stödd, með langtímaskuldir upp á 900 milljónir króna en aðeins 960 íbúa. Hún segir tekjumöguleika sveitarfélaganna ekki hafa aukist í samræmi við aukin verkefni sem þau verði að sinna samkvæmt lögum. ,,Þetta byrjaði með yfirtöku grunnskólanna og síðan hefur ekki verið lát á, meðal annars með fráveituframkvæmdum og hækkun húsaleigubóta. Við óttumst að þegar verkefni bætast á okkur þá fylgi ekki tekjur". Jóna segir að greiðslur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga bæti að nokkru úr stöðunni en fjárframlög úr honum fylgi flóknum reglum. Það sé því erfitt fyrir sveitarstjórnir að byggja fjárhagsáætlanir á þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×