Innlent

Viðvörun vegna orkufólks

Landlæknisembættið hefur sent út viðvörun vegna námskeiðahalds "orkufólksins" svokallaða hér á landi. Um er að ræða Bretana, Lyndu og Stephen Kane. Þau munu nú vera búsett í Frakklandi, samkvæmt upplýsingum Gitte Larsen, sem búsett er hér á landi og er tengiliður parsins. Kvartanir eru teknar að berast til embættisins vegna áhrifa þessara námskeiða, einkum á fjölskyldulíf aðstandenda þátttakenda. Fréttablaðið greindi frá námskeiðahaldi fólksins um síðustu helgi, meintum tilgangi námskeiðanna og ærnum kostnaði þátttakenda. Í kjölfarið kom tilkynning frá Landlæknisembættinu í gær þar sem segir: "Ástæða er til að benda fólki eindregið á að engin líffræðileg eða sálfræðileg vísindaleg þekking liggur á bak við aðferðir þeirra sem að orkunámskeiðunum standa. Hér virðist því miður vera um fremur óprúttna fjárplógsstarfsemi að ræða og leyfir Landlæknisembættið sér því að vara fólk eindregið við því sem þarna er fram borið." Auk þess að selja aðgang að námskeiðunum fyrir 20.000 krónur fyrir hvern einstakling, selja ráðgjöf og viðtöl allt upp í 7.000 krónur og svokallað orkuegg fyrir tæpar 3000 krónur stykkið. Hefur Kane-fólkið talið fólki trú um að þar sem læknar og lyfjameðferðir þeirra hefðu ekki ráðið við illvíga sjúkdóma gæti það tekið við. Gitte nefndi við Fréttablaðið í síðustu viku sjúkdóma á borð við vefjagigt og síþreytu. Meðferð til betra lífs felst meðal annars í því að sveifla pendúl til að spyrja um góðar eða slæmar afleiðingar ákvarðana. Þá er þátttakendum kennt að meta orku annarra með því að tengja sig við þá með því að nota ákveðnar fingrahreyfingar, og horfa síðan í augu viðkomandi meðan á matinu stendur. Ef sá sem á að meta er fjarstaddur má nota sýni úr honum, þar á meðal "blóð, neglur og hár," eins og stendur í kennslugögnum Kane-fólksins, sem blaðið hefur undir höndum. Betri séu þó sýni svo sem að sjá ljósmynd af viðkomandi, heyra rödd hans eða sjá skrift hans, nota röntgenmyndir eða ýmis konar niðurstöður úr líkamsskanna. Kane fólkið er horfið af landi brott.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×