Innlent

76 prósent vilja mislæg gatnamót

Um 76 prósent landsmanna telur brýnna að ráðast í gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut en byggingu Sundabrautar. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. R-listinn hefur lýst því yfir að vilji sé til þess hjá borgaryfirvöldum að hefja bygging Sundabrautar jafnvel strax á næsta ári. Sundabrautin hefur þannig verið sett efst á forgangslista stórframkvæmda í Reykjavík og gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut slegið á frest. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn eru á móti þessari forgangsröðun og hafa skorað á Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra að þrýsta á borgaryfirvöld að fara byggja mislæg gatnamót við Miklubraut og Kringlumýrarbraut á undan Sundabraut. Af þeim sem tóku afstöðu í könnuninni segjast 75,9 prósent brýnna að ráðast í gerð mislægu gatnamótanna en 24,1 prósent segja Sundabraut meira áríðandi verkefni. Marktækur munur er á afstöðu fólks eftir búsetu. Íbúar í þéttbýli eru hlynntari mislægu gatnamótunum. Tæplega 78 prósent þeirra segja brýnna að ráðast í framkvæmdir við þau samanborið við 72 prósent íbúa á landsbyggðinni. Töluvert fleira landsbyggðarfólk er óákveðið eða svarar ekki, tæplega 32 prósent samanborið við tæplega 12 prósent íbúa í þéttbýli. Ekki er marktækur munur á afstöðu kynjanna til málsins. Könnunin var gerð á laugardaginn. Spurt var: Hvort telur þú brýnna að ráðast fyrst í að gera mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklubraut eða í gerð Sundabrautar? Hringt var í 800 manns, skipt jafnt milli kynja og búsetu. Alls tóku 73,8 prósent þeirra afstöðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×