Menning

Árangurinn kemur fljótt í ljós

"Fólk þarf ekkert að vera sjúkt til að koma til okkar þótt við bjóðum upp á sjúkraþjálfun. Stöðin er fyrir fólk sem vill byggja sig upp, hvort sem það er með stoðkerfisvandamál eða ekki," segir Emilía Borgþórsdóttir, sjúkraþjálfari hjá heilsuræktarstöðinni Hreyfigreiningu við Höfðabakka í Reykjavík. Allir þjálfararnir þar eru háskólamenntaðir, flestir eru sjúkraþjálfarar og nokkrir íþróttakennarar og þeir sjá um að fólk geri æfingarnar rétt, þannig að þær komi að sem bestum notum fyrir hvern og einn. En er þetta þá ekki rándýr stöð? "Við erum ódýrari en sumir en jafndýrir og aðrir," svarar Emilía. "Í kortinu sem keypt er inn í stöðina er einn frír tími hjá einkaþjálfara sem mælir fólk og setur markmið og áætlun. Leggur upp æfingaprógramm og kennir á salinn. Auðvitað læra menn ekki allt í einum tíma og því erum við alltaf með fólk í salnum sem fylgist vel með og einnig bjóðum við uppá einkaþjálfara ef áhugi er fyrir." Liðfimi, golffimi og kraftfimi eru greinar sem boðið er upp á hjá Hreyfigreiningu. Emilía er beðin um að gera frekari grein fyrir þeim. "Liðfimi er leikfimi sem gerð er með rólegri tónlist. Hún er í ætt við jóga en byggð á æfingum úr grunni okkar sjúkraþjálfaranna. Þar leggjum við kapp á að styrkja djúpa kerfið. Yfirleitt er mest kapp lagt á að þjálfa ytri vöðvana, enda skipta þeir máli upp á útlitið en djúpa kerfið skiptir ekki minna máli, til dæmis til að halda sér beinum í baki. Við höfum hannað þetta fyrir "hómó kyrrsetikus". Í golffimi er fólk að vinna með þá vöðva sem skipta miklu máli fyrir golfara og einnig er farið aðeins í þolið. Síðan er það kraftfimin sem eykur samhæfingu, jafnvægi og góða hreyfistjórn. Ég fékk algert sjokk þegar ég byrjaði að kenna þá grein því almennt var fólk með svo lélegt jafnvægi. En árangur æfinganna kemur fljótt í ljós."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×